17 slösuðust þegar flugvél féll

Flugvél Emirates flugfélagsins á flugvellinum í Dubai. Ein flugvéla félagsins …
Flugvél Emirates flugfélagsins á flugvellinum í Dubai. Ein flugvéla félagsins lenti í mikilli ókyrrð í morgun og féll um 15 þúsund fet. Reuters

Sautján farþegar meiddust þegar flugvél Emirates flugfélagsins, á leið frá Dubai til Indlands, féll um 15 þúsund fet (4,6 km) í mikilli ókyrrð í morgun. Um borð í Boeing 777 flugvélinni voru 361 farþegi og 14 manna áhöfn.

Flugvélin lenti á áfangastað í Kochi í Suður-Indlandi skömmu eftir flugatvikið sem varð úti fyrir strönd Goa. Talsmaður flugfélagsins sagði að ókyrrðin hafi staðið stutta stund. Sumir farþeganna hafi fengið skrámur og minniháttar meiðsli. Þeir fengu aðhlynningu á flugvellinum eftir lendingu.

„Sumir farþeganna sem voru ekki með öryggisbeltin spennt köstuðust upp úr sætum sínum en flugmennirnir náðu stjórn á flugvélinni,“ sagði talsmaðurinn.

Heimildir herma að skemmdir hafi orðið á flugvélinni við að falla úr 20 þúsund feta flughæð niður í fimm þúsund feta hæð á fáeinum mínútum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert