Líkbrennsla í Glostrup er sökuð um afar hirðuleysislega meðferð á líkamsleifum látinna Dana. Fullyrðir fyrrum starfsmaður líkbrennslunnar, að afgangsösku og beinum, sem ekki brenna, sé sópað saman og hent á ruslahauga. Þá er einnig fullyrt, að hending ráði því hvaða ösku aðstandendur látinna fái í hendurnar eftir brennsluna.
Danska blaðið B. T. hefur fjallað um þessi mál að undanförnu og í dag birtir blaðið viðtal við fyrrum starfsmann Glostrup Krematorium, sem styður frásögn sína með ljósmyndum og myndskeiðum af ruslapokum fullum af ösku, ryksugupokum með ösku og fötu fullri af beinaleifum.
Alls voru 1514 lík brennd hjá líkbrennslunni á síðasta ári. B.T. fullyrðir, að aðstandendur hinna látnu hafi alls ekki fengið í hendur alla ösku sem féll til þegar látnir voru brenndir. Þá geti þeir ekki verið öruggir um, að askan sem þeir fengu afhenta í keri sé af látnum ástvinum þeirra.
Danniel Golan var rekinn úr starfi hjá Glostrup Krematorium í byrjun apríl vegna samstarfsörðugleika. Hann vísar því hins vegar á bug í samtali við B.T. að hann sé að reyna að ná sér niður á fyrirtækinu með þessum uppljóstrunum.
„Ég hef lengi haft vonda samvisku," segir hann. „Það er ekki við hæfi, að fólk sem heldur að það hafi fengið alla ösku afa síns afhenta sé blekkt. Ég hef reynt að ræða við framkvæmdastjóra kirkjugarðanna og þann sem rekur líkbrennsluna en án árangurs," segir Golan við blaðið.
Allan
Vest, formaður samtaka danskra líkbrennsla, segir ljóst að öll aska, sem fellur til við líkbrennslu, eigi að fara í öskukerið sem aðstandendur fá í hendur. Hann segir ýmislegt benda til þess, að eitthvað hafi farið úrskeiðis í Glostrup. Alls er 31 líkbrennsla rekin í Danmörku þar sem um 42 þúsund lík eru brennd árlega.