Flugfargjöld munu hækka

Rekstrarafkoma margra flugfélaga hefur verið erfið.
Rekstrarafkoma margra flugfélaga hefur verið erfið. REUTERS

Öskudreifing frá eldgosinu í Eyjafjallajökli og hátt olíuverð mun að líkindum verða til þess að flugfélög hækki flugfargjöld um 5,2% á þessi ári og um 11,5% til viðbótar á því næsta, segja sérfræðingar hjá Centre for Economics and Business Research.

Í skýrslu rannsóknarstofnunarinnar, sem Sky-fréttastofan segir frá,  kemur fram að kostnaður flugfélaga af því að flug lá niðri vegna eldgossins, hafi við lok síðustu viku numið 1,3 milljörðum punda, eða um 250 milljörðum ísl. kr.  Tveir þriðjuhlutar þess kostnaðar lenda á evrópskum flugfélögum.

Þetta er talið muni verða til þess að flugfélögin, sem nú þegar glíma mörg hver við slæma rekstrarafkomu, þurfi að hækka verð á flugfargjöldum sínum til að vega á móti kostnaðinum.

Alþjóðasamtök flugfélaga (Iata) viðurkenna að hækkandi olíuverð sé áhyggjuefni fyrir félögin, en segja hækkandi fargjöld ekki óhjákvæmileg viðabrögð við því sem þau kalla „the ash crisis“ (öskukreppan).

Askan úr Eyjafjallajökli hefur valdið vandræðum út um víða veröld.
Askan úr Eyjafjallajökli hefur valdið vandræðum út um víða veröld. Hans-Martin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert