Kanna nýja skipan peningamála

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, (t.h.) og Hu Jintao, Kínaforseti, í Alþýðuhöllinni …
Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, (t.h.) og Hu Jintao, Kínaforseti, í Alþýðuhöllinni í Peking. Reuters

Frakkar og Kínverjar ætla að vinna sameiginlega að því að kanna mögulegar umbætur á peningakerfi heimsins á vettvangi G-20 ríkja hópsins. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti greindi frá þessu í dag á blaðamannafundi sem hann hélt ásamt Hu Jintao forseta Kína.

Forsetarnir hittust í Peking í dag. Sarkozy sagði að löndin tvö myndu kanna „nýtt fjölpóla skipulag peningamála“ eftir að Frakkar taka við forsæti í G-20 hópnum í nóvember.

G-20 þjóðahópurinn var stofnaður árið 1999 í kjölfar mikils efnahagssamdráttar í Asíu árið 1997. Tilgangurinn var að skapa vettvang þar sem ríki með þróuð hagkerfi og þau sem voru komin langt á þróunarbrautinni gátu unnið að jafnvægi á fjármálamörkuðum heimsins.

Fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar G-20 ríkjahópsins hafa síðan fundað á hverju ári. Eftirtalin ríki eiga sæti í G-20 ríkjahópnum:

Argentína, Ástralía, Bandaríkin, Brasilía, Bretland, Frakkland, Indland, Indónesía, Ítalía, Japan, Kanada, Kína, Mexíkó, Rússland, Sádi-Arabía, Suður-Afríka, Suður-Kórea, Tyrkland og Þýskaland. Evrópusambandið er svo 20. þátttakandinn í hópnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert