Ríkisstjórn Þýskalands gaf það út í dag, að skuldavandræði Portúgals og Spánar væru „ekki samanburðarhæf" við kreppuna í Grikklandi. Ótti hefur verið að aukast um að kreppan í Grikklandi geti breiðst út um Evrópusambandið og jafnvel gengið af evrusamstarfinu dauðu.
„Það er ekki sambærileg staða," sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Þýskalands í dag, aðspurður hvort það væri skoðun þýskra stjórnvalda að Portúgal og Spánn myndu einnig þurfa á björgunarpakka frá ESB og AGS að halda. „Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri stöðu," sagði talsmaðurinn.
Á sama tíma hafa portúgölsk stjórnvöld keppst við það í dag að sannfæra fjarfesta um að skuldakreppa Grikklands hafi ekki smitast þangað. Lækkun Standard & Poor's á lánshæfismati portúgalska ríkisins leiddi til þess í morgun að hlutabréf á mörkuðum þar lækkuðu um 6% að meðaltali. Einkunnin var lækkuð úr A+ í A- með neikvæðar horfur.
Jose Socrates forsætisráðherra og Pedro Passos Coelho, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag til þess að koma sameinaðir fram gagnvart því sem þeir kölluðu „árás frá markaðnum".
Socrates og Coelho ræddu þar möguleikann á því að draga úr ríkisútgjöldum af mikilli hörku, til þess að minnka hinn gríðarlega fjárlagahalla sem þar er. Á síðasta ári var hallinn 9,4% af vergri landsframleiðslu, sem er met.
Lántökukostnaður ríkisins jókst líka mikið þar sem ávöxtunarkrafan á portúgölsk ríkisskuldabréf til tíu ára, rauk upp í rétt tæplega 6% úr 5,5% og á bréfum til tveggja ára hækkaði hún í 5,7% úr 5,5.
„Að stjórnmálamennirnir sýni samstöðu er gott, því markaðirnir hafa óttast að stjórnarandstaðan muni gera aðgerðum stjórnvalda erfitt fyrir. Það er það sem við höfum óttast varðandi Grikkland," segir Paul de Grauwe, belgískur hagfræðingur, við blaðamann AFP.
Á meðal þeirra aðgerða sem portúgölsk stjórnvöld hafa gripið til og ætla að grípa til er fjögurra ára launafrysting opinberra starfsmanna og einkavæðing nokkurra ríkisfyrirtækja.