Herman Van Rompuy, forseti Evrópusambandsins, sagði í morgun að samningaviðræður um endurfjármögnun skulda gríska ríkisins gangi vel og enginn vafi leiki á að þær muni skila árangri. Leiðtogar ríkja á evrusvæðinu munu koma saman til fundar um málið 10. maí. Í morgun fór ávöxtunarkrafa grískra ríkisskuldabréfa til 10 ára yfir 10%.
„Á grunni skýrslu, sem lokið verður við á næstu dögum, munu þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir ákveða að virkja fjármögnun sameiginlegrar áætlunar sem nú er verið að semja um milli Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að sjálfsögðu grískra stjórnvalda," sagði Van Rompuy, sem nú er í heimsókn í Japan.
„Samningaviðræðurnar standa yfir. Þær eru samkvæmt áætlun og það leikur enginn vafi á að skuldirnar verða endurfjármagnaðar."
Gert er ráð fyrir að grísk stjórnvöld fái aðgang að allt að 45 milljörðum evra samkvæmt björgunaráætlun Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Gríska ríkið þarf að greiða 9 milljarða evra skuldabréf 19. maí. Matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði í gær lánshæfiseinkunn gríska ríkisins niður í ruslflokk sem þýðir, að aðgangur Grikkja að lánsfé á alþjóðlegum markaði hefur nánast lokast.