Fangelsaður fyrir að þykjast vera frægur lýtalæknir

Eins og sést á þessari mynd, sem fengin er af …
Eins og sést á þessari mynd, sem fengin er af vef FBI, hefur Steven Moos verið handsamaður.

Dómstóll í Dubai hefur dæmt bandarískan lækni í tveggja mánaða fangelsi fyrir skjalafals og fyrir að hafa starfað án leyfis. Maðurinn framkvæmdi lýtaaðgerðir í landinu undir fölsku flaggi. Hann þóttist vera frægur lýtalæknir sem starfar í Hollywood.

Steven Moos, sem er fertugur, var dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir að falsa skjöl. Þau sýndu fram á að hann væri læknirinn Steven Hopping, sem er fyrrum forseti Lýtalækningarháskóla Bandaríkjanna.

Þá var hann dæmdur í mánaðar fangelsi fyrir að hafa unnið við lýtalækningar í Sameinaða arabíska furstadæminu án leyfis.

Búist er við því að Moos verði framseldur til Bandaríkjanna að afplánun lokinni. Bandaríska alríkislögreglan hefur lýst eftir honum í tengslum við fíkniefnasölu og aðra glæpi sem varða líf og heilsu fólks, að því er fram kemur í dagblaðinu The National í Abu-Dhabi.

Það er hins vegar alls óvíst hvenær hægt verði að framselja hann því tveir sjúklinga hans hafa höfðað einkamál á hendur honum. Þeir halda því fram að Moos hafi klúðrað aðgerðum á sér.

Í blaðinu er birt ljósmynd af konu sem er með ónýta efri vör, en hún er sögð hafa verið sjúklingur Moos.

Meðal þess sem hann gerði var að framkvæma fitusog við frumstæðar aðstæður á heimili sínu. Þetta segir yfirmaður Lýtalækningaháskóla Bandaríkjanna, sem er staðsettur í Dubai. 

Það komst upp um svikahrappinn þegar einn af sjúklingum hans sendi hinum raunverulega Steven Hopping nafnspjald, sem Moos lét fólk fá. Sjúklingurinn spurði einfaldlega: „Ert þetta þú?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert