Fimmfalt meira af olíu að leka

Deepwater Horizon olíuborpallurinn sem sökk í síðustu viku.
Deepwater Horizon olíuborpallurinn sem sökk í síðustu viku. HO

Bandaríska landhelgisgæslan segir að fimm sinnum meiri olía, en áður var talið, sé að leka út í Mexíkóflóa.  Oíuborpallur sökk í síðustu viku, um 80 km út af strönd Louisiana ríkis, eftir mikla sprengingu. Segir landhelgisgæslan að nú leki um 700.000 lítrar af olíu frá pallinum á dag. Einnig hefur komið í ljós að það lekur á þremur stöðum við pallinn.

Olíufélagið BP, sem starfrækti pallinn og hefur staðið í aðgerðum með landhelgisgæslunni eftir slysið, heldur því hins vegar fram að enn ætti frekar að miða við um 150.000 lítra á dag.

Bobby Jindal, ríkisstjórinn í Louisiana hefur kallað eftir hjálp frá alríkisstjórninni við að koma í veg fyrir umhverfisslys, eftir að breytingar á vindátt hafa gert stöðuna ennþá verri en ella.

Jindal segir líka að hluti olíuflekksins, sem er hátt í þúsund ferkílómetrar að ummáli, hafi slitnað frá aðalflekknum. Vegna sterkrar vindáttar til lands gæti hann komið að landi við mikilvæg náttúruverndarsvæði strax í dag.

„Einmitt núna búumst við við því að Pass-A-Loutre verndarsvæðið sé að verða fyrir fyrstu afleiðingum olíulekans,” segir Jindal. Einnig er talið líklegt að olían komist í ósa Mississippi ár fljótlega, kannski næstu nótt.

Það gæti farið mjög illa með mikilvæg búsvæði fugla og gert mikinn skaða á sjávarútveginum á þesu svæði, sem sér Bandaríkjamönnum fyrir stórum hluta þess sjávarfangs sem þeir borða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka