Kafbátajafnrétti orðið að veruleika

Reuters

Konur mega nú þjóna um borð í bandarískum kafbátum í fyrsta sinn. Bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá þessari ákvörðun í febrúar sl. en Bandaríkjaþingi gefinn var frestur til athugasemda. Fresturinn rann út á miðnætti í nótt að bandarískum tíma.

Það getur hins vegar liðið heilt ár þar til konur fara að sjást um borð í bandarískum kafbátum. Bæði þurfi að kenna þeim réttu handtökin og búa til stöður fyrir þær um borð.

Hingað til hefur konum ekki verið leyft að vera um borð í kafbátum með körlum. Þær hafa hins vegar mátt þjóna um borð á venjulegum skipum. Um 15% bandarískra sjóliða eru konur.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lét þingið vita að banninu yrði aflétt ef engar athugasemdir myndu berast. Sá frestur rann út í nótt sem fyrr segir.

Fleiri breytingar eru framundan því um næstu áramót verður bannað að reykja um borð í kafbátum. Talið er að um 5.000 reykingarmenn þjóni um borð í bátunum. Þeim er hins vegar gert að hlíta þessum reglum, en árið 1993 var hermönnum bannað að reykja innandyra. 31. desember nk. mun þetta taka til þeirra sem sigla um borð í kafbátum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert