Mannréttindabaráttukonan Ayaan Hirsi Ali gagnrýnir harðlega það sem hún kallar „ofbeldisfullan“ og „óumburðarlyndan“ lífstíl íslamstrúar í viðtali við danska dagblaðið Jótlandspóstinn. Blaðið reitti múslíma til mikillar reiði um allan heim þegar það birti skopmyndir af Múhameð spámanni árið 2005.
„Íslam er ofbeldisfullur og óumburðarlyndur lífstíll. Lífstíll sem er fjandsamlegur konum og samkynhneigðum. Óumburðarlyndur og óréttlátur,“ segir Hirsi Ali í samtali við Jótlandspóstinn.
Hún er fædd í Sómalíu og sat um tíma hollenska þinginu. Henni hafa borist morðhótanir vegna gagnrýni sinnar á íslam. Hún hefur m.a. kallað eftir því að Bandaríkin og ríki í Evrópu veiti setji múslímaríkjum ákveðin skilyrði eigi þau að fá þróunaraðstoð.
„Við eigum að segja við þau: „Við skulum hjálpa ykkur, en þið verðið að breyta afstöðu ykkar gagnvart konum, því við teljum að fresli kvenna hafi jákvæð áhrif á þróun“,“ segir hún.
Hirsi Ali býr nú í Bandaríkjunum. Hún er hins vegar stödd í Kaupmannahöfn til að kynna bókina „Nomad“, sem hún skrifaði. Í dag hlaut hún Tjáningarfrelsisverðlaun Jótlandspóstsins.
Árið 2004 gerði Hirsi Ali stuttmyndina Submission I ásamt kvikmyndagerðarmanninum Theo Van Gogh, sem í kjölfarið var myrtur á hrottafenginn hátt á götum Amsterdamborgar, en með myndinni vildi hún lýsa því myndrænt hversu kúgandi afl íslam geti verið fyrir konur. Henni bárust líflátshótanir og síðan þá hefur hún notið lögregluverndar.
Hún segir í samtalinu við Jótlandspóstinn að hún sjái ekki eftir því að hafa gagnrýnt íslam.
„Ég lifi í lögregluvernd, en andi minn er frjáls. Ég get birt það sem ég vil.“