Sókn Browns mistókst

David Cameron, Nick Clegg og Gordon Brown eftir kappræðurnar í …
David Cameron, Nick Clegg og Gordon Brown eftir kappræðurnar í Birmingham í gærkvöldi. Reuters

Skoðanakannanir, sem gerðar voru í Bretlandi í gærkvöldi eftir þriðju og síðustu sjónvarpskappræður leiðtoga þriggja stærstu stjórnmálaflokka landsins, sýna að Gordon Brown, forsætisráðherra, hefur ekki tekist að rétta hlut sinn.

Skoðanakannanir, sem bresk blöð birtu í morgun, staðfesta að Íhaldsflokkurinn nýtur enn mests fylgis meðal Breta. Í könnun sem YouGov gerði fyrir The Sun mælist fylgi Íhaldsflokksins 34%, Frjálslyndra demókrata 28% og Verkamannaflokksins 27%. Könnun sem ICM gerði fyrir Guardian sýnir fylgi flokkanna 35%, 29% og 27% í sömu röð.

Brown varð fyrir miklu áfalli í vikunni þegar það heyrðist til hans skamma aðstoðarmenn sína fyrir að láta hann tala við konu á sjötugsaldri sem hann sagði vera fordómafulla. Brown vonaðist til að geta rétt hlut sinn í kappræðunum í gærkvöldi, sem fjölluðu um efnahagsmál, en kannanir sýndu að áhorfendum þótti honum takast síst upp af leiðtogunum þremur. 

Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, tók á ný þátt í kosningabaráttunni í morgun. En Brown, sem afhjúpaði nýtt kosningaspjald í morgun, viðurkenndi að 13 ára valdaferli flokksins kynni brátt að ljúka. 

„Ef ekkert breytist kynni Íhaldsflokkurinn og hugsanlega Frjálslyndir að mynda ríkisstjórn saman," sagði Brown við blaðamenn í Birmingham í morgun. 

„Við munum halda áfram að berjast fyrir framtíð landsins fram á síðustu sekúndu þessarar kosningabaráttu," bætti Brown við. „Tími kappræðna er liðinn. Tími ákvarðana er kominn."

Fréttaskýrendur voru sammála um, að David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, væri sigurvegari kappræðnanna í gærkvöldi.  „Nigel Clegg (leiðtogi Frjálslyndra demókrata) leit út eins og nýi strákurinn í blokkinni og Brown þurfti að burðast með farangur 13 ára stjórnarferils," sagði dálkahöfundur Daily Telegraph. „Cameron leit hins vegar út eins og leiðtogi."

Guardian tók í sama streng. „Cameron var sjálfsöruggur og þetta var besta frammistaða hans í kappræðum til þessa. Hann var bjartsýnn, traustur, öruggur." 

Breska tímaritið Economist lýsti í gær stuðningi við Cameron og Íhaldsflokkinn í kosningunum, sem fara fram á fimmtudag. 

Cameron hafnaði í kappræðunum í gærkvöldi gagnrýni Browns á stefnu flokksins í efnahags- og innflytjendamálum og kallaði hana þreytta og örvæntingarfulla. Sagði hann Íhaldsflokkinn vera ferska byrjun eftir valdatíma Verkamannaflokksins.

Á einum tímapunkti sagði hann að ríkisstjórnin hefði staðið fyrir þrettán árum af misheppnaðri hagstjórn og á sama tíma hefði misrétti aukist og alvarleg fátækt orðið verri.

Í herbúðum Browns hafði verið vonast eftir því að umræðurnar í gær, sem áttu að vera aðallega um efnahagsmál, yrðu Brown hagstæðar þar sem hann var fjármálaráðherra í tíð Blair og átti lengi vel góðu gengi að fagna í því embætti.

Brown reyndi ekki að fela atvikið með Gillian Duffy á miðvikudag, þegar hann kallaði hana fordómafulla. ,,Það er annasamt í þessu starfi og eins og þið sáuð í gær þá geri ég ekki allt rétt. En ég veit hvernig á að stjórna efnahagsmálum, í góðæri og kreppu,” sagði Brown.

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, sem gaf formennskuna eftir til Browns árið 2007 eftir innanflokksátök í Verkamannaflokknum, mun taka þátt í kosningabaráttunni í næstu viku, samkvæmt heimildum The Guardian. Þá mun hann halda kosningafundi fyrir flokkinn í norðausturhluta Englands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert