Fréttaskýring: Belgar banna búrkur á almannafæri

Konur í búrkum.
Konur í búrkum.

eftir Karl Blöndal

kbl@mbl.is Belgíska þingið samþykkti seint á fimmtudag lög, sem banna fólki að klæðast á almannafæri fatnaði, sem kemur í veg fyrir að bera megi kennsl á það. Tilgangur laganna er að banna múslímskum konum að bera níkab eða slæður fyrir andliti og klæðast búrkum, en hvorugt er þó nefnt á nafn í þeim. Þó er leyfilegt að klæðast grímubúningi á kjötkveðjuhátíðum og öryggishjálmar eru undanþegnir banninu.

Belgía er fyrsta landið í Evrópu til að innleiða slíkt bann og athygli vekur að 136 þingmenn í neðri deild belgíska þingsins greiddu atkvæði með banninu, enginn gegn því og tveir sátu hjá. Slík eining er fátíð í belgískum stjórnmálum. Öldungadeild þingsins á eftir að fjalla um málið og það gæti tafist vegna stjórnarkreppunnar í landinu, en hún hefur takmarkað vald til að stoppa það.

Um hálf milljón múslíma er í Belgíu, en aðeins er talið að nokkrir tugir kvenna klæðist búrkum.

„Við erum fyrsta þjóðin til að dýrka upp lásana, sem hafa gert dágóðan fjölda kvenna að þrælum og við vonum að Frakkland, Sviss, Ítalía og Holland fylgi í kjölfarið,“ sagði Denis Ducarme, þingmaður frjálslyndra, eftir að bannið hafði verið samþykkt.

Bannið mun gilda á götum úti, í almenningsgörðum, á íþróttavöllum og í byggingum, sem ætlaðar eru til nota almennings eða þjónustu við almenning, segir í lögunum. Viðurlög við að brjóta þau eru 15 til 25 evra (2.500 til 4.200 króna) sekt og/eða allt að sjö daga fangelsi.

Óréttlætanlegar hömlur

Le Soir

Múslímar í Belgíu hafa lýst reiði vegna bannsins. Fréttastofan AFP talaði við Souad Barlabi, unga konu með einfalda slæðu fyrir andliti, fyrir utan aðalmoskuna í Brussel þegar boðað var til bænastundar síðdegis í gær. „Það er verið að reyna að espa okkur upp,“ sagði hún. „Okkur líður eins og verið sé að ráðast á okkur.“ Hún bætti við að „önnur vandamál væru mikilvægari“.

„Þetta er bara yfirskin,“ sagði Samuel Bult, sem hefur gerst múslími og stóð fyrir utan moskuna og dreifði blöðum og trúargripum. „Hversu mörg rán fremja menn klæddir búrkum?“

John Dalhuisen, sérfræðingur Amnesty International um mismunun í Evrópu, sagði að algert bann við því að hylja andlit sitt bryti gegn tjáningar- og trúfrelsi þeirra kvenna, sem bæru níkab eða klæddust búrkum. Hann telur að bannið sé hættulegt fordæmi.

Hermt er að bann við búrkum sé á næsta leiti í Frakklandi og það er til umræðu í Austurríki, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og Sviss.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert