Lítið lát er á ofbeldisöldunni í Mexíkó sem hófst fyrir alvöru þegar stjórnvöld lýstu skipulögðum glæpasamtökum stríði á hendur. Um helgina voru 25 manns myrtir í norðurhluta Chihuahua fylkis, við landamærin að Bandaríkjunum.
Sjö morðanna áttu sér stað í mestu ofbeldisborg Mexíkó, Ciudad Juarez, en aðeins einni viku hafa 62 verið drepnir í borginni og 850 það sem af er ári. Ástandið var ekki skárra á síðasta ári en yfir 2.660 morð voru framin í Juarez. Þessar tölur eru þeim mun ótrúlegri þegar litið er til þess að íbúar borgarinnar eru ekki nema um 1,3 milljónir.
Átján víg til viðbótar voru svo framin liðna nótt í Chihuahua. Þar af féllu fjórir þegar skotið var af sjálfvirkum hríðskotabyssum á öldurhús í bænum Camargo. Við sama bæ fannst yfirgefin bifreið og í farangursgeymslu lík tveggja kvenna.
Síðan stríð stjórnvalda við fíkniefnagengi Mexíkó hófst í byrjun 2007 hafa um 23 þúsund einstaklingar látið lífið í málum tengdum gengjum. Tengist ofbeldið helst yfirráðum glæpasamtaka og flutningi á fíkniefnum til Bandaríkjanna.