Árásarmaður sakfelldur

Dómstóll á Indlandi hefur sakfellt Mohammad Ajmal Qasab fyrir þátt sinn í hryðjuverkaárás sem var gerð á Mumbai á Indlandi árið 2008. Qasab, sem er 22 ára Pakistani, er eini árásarmaðurinn sem komst lífs af.

Hann hefur verið fundinn sekur um morð, fyrir að hafa sprengiefni á sér og fyrir að hafa sagt Indlandi stríð á hendur. Frá þessu er greint á fréttavef breska útvarpsins.

Alls létust 174 í árásunum, sem voru gerðar í nóvember árið 2008. Þar af létust níu árásarmenn. Samskipti Indlands og Pakistans versnuðu í kjölfar árásarinnar, en stjórnvöld á Indlandi segja að pakistanski uppreisnarhópurinn Lashkar-e-Taiba hafi staðið á bak við hryðjuverkin.

Yfirvöld í Pakistan neituðu því í upphafi að árásin hafði verið að hluta til skipulögð í Pakistan. Því var einnig neitað að Qasab væri pakistanskur.

Tveir Indverjar, sem voru sakaðir um að hafa aðstoðað árásarmennina, voru sýknaðir í Mumbai í dag.

Réttarhöldin yfir Qasab stóðu yfir í 271 dag. Gríðarleg öryggisgæsla var í og við dómshúsið, sem var sérhannað á lóð fangelsis í borginni.

Saksóknari krefst dauðarefsingar.

Mohammed Ajmal Qasab í réttarsal.
Mohammed Ajmal Qasab í réttarsal. Reuters
Mikill fjöldi her- og lögreglumanna vaktar dómshúsið.
Mikill fjöldi her- og lögreglumanna vaktar dómshúsið. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert