Fulltrúar Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands gengu út undir ræðu Mahmouds Ahmadinejads, forseta Írans, á ráðstefnu um kjarnorkuvopn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Sendimenn frá löndunum þremur gengu út úr salnum þegar Ahmadinejad sakaði kjarnorkuríki um að hóta öðrum ríkjum með kjarnorkuárásum. Hvatti Íransforseti til þess, að Bandaríkjamenn yrðu reknir úr stjórn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar af þessum sökum.
Yukiya Amano, sem nýlega tók við embætti framkvæmdastjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sagði á ráðstefnunni, að stofnunin gæti ekki staðfest að öll kjarnorkustarfsemi Írana væri í friðsamlegum tilgangi.