Sænska stjórnarandstaðan vill hækka skatta

Mona Salin, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð, á útifundi í Stokkhólmi …
Mona Salin, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð, á útifundi í Stokkhólmi 1. maí. Reuters

Sænska stjórnarandstaðan lagði í dag fram svokölluð skuggafjárlög þar sem lagt er til að skattar verði hækkaðir, tryggingabætur verði hækkaðar og fé varið til að skapa ný störf.  Fimm mánuðir eru til þingkosninga í Svíþjóð. 

Jafnaðarmannaflokkurinn, Græningjar og Vinstriflokkurinn hafa myndað kosningabandalag og hvetja í sameiginlegri tilkynningu til þess að sköpuð verði fleiri störf, aukin áhersla verði lögð á umhverfismál og dregið úr misrétti. 

Segjast flokkarnir þrír vilja hækka skatta á hátekjufólk og hækka álögur á tóbak, áfengi og bensín. Flokkarnir vilja einnig auka fjárframlög til samgangna, þar á meðal háhraðalestarkerfis. Þá segjast flokkarnir munu grípa til ráðstafana til að draga úr atvinnuleysi með ýmsu móti fái þeir til þess stuðning í kosningunum í haust. Atvinnuleysi í Svíþjóð er nú 9,2% og hefur ekki verið meira frá því í sænsku kreppunni á tíunda áratug síðustu aldar.  

„Það er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um alþjóðlegu fjármálakreppuna," segir í tilkynningu frá flokkunum þremur. „En ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að vinnumarkaðurinn hefur dregist saman."  Benda flokkarnir á að atvinnuleysi í Svíþjóð sé nú meira en í Þýskalandi og Belgíu og álíka mikið og í Finnlandi.

Rauðgrænu flokkarnir segjast vilja hækka atvinnuleysisbætur og lækka skatta á ellilífeyrisþegum. 

Samsteypustjórn mið- og hægriflokka hefur verið við völd í Svíþjóð frá árinu 2006 undir forustu Fredriks Reinfelds, leiðtoga Hægriflokksins. Skoðanakannanir benda hins vegar til þess, að rauðgræna bandalagið gæti farið með sigur af hólmi í kosningunum í haust. Í síðustu viku sýndi könnun stofnunarinnar  Synovate að 51,2% kjósenda ætla að kjósa rauðgrænu flokkana, 8 prósentum fleiri en ætla að kjósa stjórnarflokkana. Jafnaðarmannaflokkurinn er stærsti flokkur landsins, samkvæmt könnuninni með 35,1% fylgi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert