Frambjóðandi Verkamannaflokksins, Manish Sood, vandar formanni flokksins ekki kveðjurnar í bæjarblaðinu Lynn News í austurhluta Englands í dag. Segir hann Gordon Brown vera lélegasta forsætisráðherra sögunnar og hann sé þjóðinni til skammar. Réttast sé að Brown biðji bresku þjóðina og Elísabetu II drottningu afsökunar.
Verkamannaflokkurinn virðist eiga litla möguleika í þingkosningum sem fram fara í Bretlandi á fimmtudag og líkur á að hann tapi fyrstu þingkosningunum þar í landi í þrettán ár.
Sood segir í greininni að innflytjendum hafi fjölgað mikið og það valdi ágreiningi í bæjarfélögnum. Landið sé að verða stærra og sóðalegra. Hlutverk ráðherra sé orðið að skriffinnsku og aðgerðir þeirra séu á niðurleið. Spilling ríki. „Vöntun á félagslegum gildum er aðalvandinn og það er ekki það sem Verkamannaflokkurinn snýst um," seigr Sood í greininni. „Ég held að Gordon Brown hafi verið versti forsætisráðherra sem við höfum haft í þessu landi," bætir hann við.
Í viðtölum við ljósvakamiðla í kjölfar greinarinnar segist Sood standa við hvert orð og það þurfi að hreinsa til í Verkamannaflokkunum. „Þegar við gerum það mun allt ganga betur," segir Sood í viðtali við Sky.