Ítalska lögreglan sektaði konu sem var í búrku um fimm hundruð evrur, 85 þúsund krónur, í gær og er þetta í fyrsta skipti sem kona er sektuð fyrir að klæðast búrku á Ítalíu. Deilt er um það víða í Evrópu hvort eðlilegt sé að banna fólki að klæðast á almannafæri fatnaði, sem kemur í veg fyrir að bera megi kennsl á það.
Neitaði að sýna andlitið
Konan sem var sektuð er 26 ára og frá Túnis. Hún var á gangi með eiginmanni sínum í borginni Novara í gær þegar lögregla stöðvaði hana og samkvæmt sektarmiða sem hún fékk á hún að greiða 500 evrur fyrir klæðaburðinn. Eiginmaður hennar rétti lögreglunni skilríki þeirra hjóna en neitaði því að konan mætti lyfta blæjunni frá andlitinu svo hægt væri að bera kennsl á hana. Lögregluþjónninn óskaði eftir aðstoð lögreglukonu sem aðstoðaði við að fá konuna til að sýna andlit sitt.
Norðurbandalagið (Lega Nord per l'Indipendenza della Padania) sem er bandalag stjórnarflokkana á Ítalíu, hefur lagt fram frumvarp til laga þar sem lagt er algjört bann við búrkum en frumvarpið hefur ekki verið rætt á þingi enn. Þar er lagt til að sekt fyrir að vera í búrku verði 2 þúsund evrur. En á sama tíma og engin sérstök lög gilda um bann við búrkum þá hefur verið bannað að hylja andlit sitt á Ítalíu frá árinu 1975 og skiptir þar engu hvort um mótorhjólahjálm eða búrku er að ræða. Hins vegar er þessum lögum ekki fylgt nema þar sem Norðurbandalagið er við völd. Novara, sem er í Piedmont héraði, er undir stjórn Norðurbandalagsins.
Haft er eftir leiðtoga Norðurbandalagsins í Novara, Massimo Giordano, að ekki sé hægt að leyfa fólki að ganga um með andlit sitt hulið. Hann segir að eiginmenn verði að gera sér grein fyrir því að á Ítalíu njóti konur sömu réttinda og karlar.
Líkt og fram kom í Morgunblaðinu á laugardag samþykkti belgíska þingið á fimmtudag lög, sem banna fólki að klæðast á almannafæri fatnaði, sem kemur í veg fyrir að bera megi kennsl á það. Belgía er fyrsta landið í Evrópu til að innleiða slíkt bann.
Hermt er að bann við búrkum sé á næsta leiti í Frakklandi og það er til umræðu í Austurríki, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og Sviss.
Frakkar hyggjast fangelsa í allt að eitt ár og beita þungum sektum, að hámarki 1.500 evrur, hvern þann, sem neyðir múslímska konu til að hylja andlit sitt. Einnig mun það varða sektum að hylja andlit sitt samkvæmt drögum að lagafrumvarpi. Konur munu eiga yfir höfði sér 150 evra sekt ef þær bera níkab eða klæðast búrku á almannafæri.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, segir að þessi klæðnaður sé móðgun við franska menningu og niðurlægi konur. Í Frakklandi eru á milli fjórar og fimm milljónir múslíma og er talið að um 1900 konur hylji ásjónu sína.
Ekki eiginkonur heldur hjákonur
Í frönsku borginni Nantes var kona sektuð í síðasta mánuði fyrir að klæðast búrku. Konan neitaði að greiða sektina. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum er verið rannsaka eiginmann konunnar en hann er grunaður um fjölkvæni.
Hefur þess verið krafist af stjórnmálamanni að eiginmaðurinn, sem er frá Alsír, verði sviptur ríkisborgararétti. Eiginmaðurinn segist hins vegar eiga hjákonur en ekki fjórar eiginkonur líkt og fram hafi komið í fjölmiðlum.