Stéttarfélög í Grikklandi hvöttu til mótmæla í dag gegn fyrirhuguðum niðurskurði og skattahækkunum stjórnvalda sem ætlað er að koma í veg fyrir gjaldþrot Grikklands. Ríkisstjórnin ætlar að freista þess að koma lögunum í gegnum þingið í dag. Þrír létust í mótmælum í Aþenu í gær.
Þrátt fyrir að þrír hafi látist í gær þegar eldsprengju var varpað inn í banka þá hvetja stéttarfélögin til mótmæla í dag. Hins vegar fordæma þau ofbeldið, íkveikjur og skemmdarverkin sem unnin voru í mótmælunum í gær. Meðal þeirra sem létust í bankanum var þunguð kona sem starfaði í bankanum. Auk hennar létust tveir karlar.
Starfsmenn grískra banka eru í verkfalli en með því vilja þeir mótmæla dauða starfsmanna Marfin bankans í miðborg Aþenu. Þrátt fyrir að lögreglan hafi girt bankann af þá fékk fólk að leggja blóm við bankann en byggingin er afar illa farin eftir eldsvoðann.
„Grikkland stendur á „barmi hyldýpisins“, sagði Carolos Papoulias, forseti Grikklands, í gær. „Enginn hefur rétt til að beita ofbeldi, að ekki sé talað um ofbeldi sem leiðir til morðs,“ sagði Papandreou.