Fréttamenn á úkraínsku sjónvarpsstöðinni 1+1 segja í grein í dagblaði í Úkraínu í dag að stjórnvöld hafi innleitt ritskoðun á ný og fréttamenn fái ekki að fjalla um ákveðin mál. Þá séu fréttir, sem innihaldi gagnrýni á stjórnvöld, ekki birtar af pólitískum ástæðum.
Í greininni segir, að klassískt dæmi um „hugsanastjórnun" hafi verið afskipti af fréttum af átökum, sem brutust út í úkraínska þinginu í síðustu viku vegna deilna um afnot Rússa af flotastöð á úkraínsku landi við Svartahaf.
„Við krefjumst þess að þeim fyrirlitlegu aðferðum að gefa út tilskipanir og umvandanir verði hætt og banni við umfjöllum um tiltekin mál verði aflétt," segir í lesendabréfinu, sem 15 fréttamenn skrifa undir.
Sjónvarpsstöðin 1+1 er einkarekin og er ein vinsælasta stöðin í Úkraínu. Kröfur fréttamannanna minna á svipaðar kröfur, sem komu fram fyrir appelsínugulu byltinguna svokölluðu árið 2004 þegar Viktor Janúkóvíts, sem þá var forseti landsins, var hrakinn frá völdum. Janúkóvíts er nú aftur forseti en hann sigraði í kosningum í febrúar.
Nokkrar sjónvarpsstöðvar í Úkraínu sökuðu Janúkóvítsj þá um að þrýsta á sjónvarpsstöðvar að senda út efni, sem sýndi Viktor Jútsjenkó, keppinaut hans í forsetakosningum, í neikvæðu ljósi.