Cameron reynir að mynda stjórn

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að hann teldi eðlilegt að Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir demókratar myndu hefja stjórnarviðræður. Ef þær rynnu út í sandinn þá væri hann reiðubúinn til að ræða við frjálslynda. Einungis þrettán þingsæti eru ekki ljós enn og eru íhaldsmenn komnir með 301 þingsæti. Verkamannaflokkurinn er með 255 og Frjálslyndir demókratar með 54. 

David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, ætlar á næstu klukkustundum að hefja viðræður við Nick Clegg, formann Frjálslyndra demókrata um mögulega stjórnarmyndun.

Brown er að ræða við fjölmiðla við Downingstræti 10 og segir að hann virði þá ákvörðun Clegg að ræða fyrst við Cameron. Hann segir að þeir geti tekið allan þann tíma sem þeir telji nauðsynlegt til þess að ræða um stjórnarsamstarf. Er þetta í fyrsta skipti frá árinu 1974 sem enginn flokkur nær meirihluta á breska þinginu.

Kjörsókn var góð í gær en talsverð óánægja er með að nokkur þúsund kjósendur gátu ekki kosið þar sem kjörstöðum var lokað á meðan þeir biðu í biðröð á kjörstöðum. Svo virðist sem skortur hafi verið á skipulagi á einhverjum kjörstöðum. Brown hefur heitið því að þetta verði rannsakað.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert