Rætt um mögulega stjórnarmyndun

Leiðtogar Íhaldsflokksins, David Cameron, og Frjálslyndra demókrata Nick Clegg, hittust á fundi í dag og ræddu mögulega ríkisstjórnarmyndun. Íhaldsflokkurinn fékk flesta þingmenn kjörna í kosningum í Bretlandi í gær. Hins vegar ekki nægjanlega mörg til þess að mynda meirihlutastjórn. Það er því útlit fyrir að í Bretlandi verði samsteypustjórn mynduð, eitthvað sem ekki hefur gerst síðan 1974.

Talsmaður Frjálslyndra demókrata segir að yfirmenn beggja flokka hafi tekið þátt í fundinum og hann staðið í klukkutíma. Ákveðið var að hittast aftur síðar. Hins vegar hefur fréttamönnum gengið illa í dag og kvöld að fá nánari upplýsingar um mögulega stjórnarmyndun og því ekki vitað hvenær viðræðum verður haldið áfram. Að minnsta kosti er ljóst að ekki verður gengið frá neinum samningi í kvöld eða fyrramálið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert