Hundrað tonna hvolfþaki var í dag komið fyrir yfir olíulekanum á botni Mexíkóflóa, þar sem fljótandi olíuborpallur frá BP sprakk og sökk 22. apríl síðastliðinn. Miklar vonir eru bundnar við þessa aðgerð, en þetta er nokkuð sem aldrei hefur verið reynt áður.
Hvolfþakinu var komið fyrir yfir olíulekanum með aðstoð neðansjávarróbóta og margs konar tækjabúnaðar, á um 1.500 metra dýpi. Ætlunin er sú að láta þakið fanga olíuna áður en hún dreifist um hafið og leiða hana upp um nýja leiðslu um borð í fljótandi pramma á yfirborði sjávarins.
Einnig er ráðgert að bora nýjar holur í botninn þar sem hægt verður að ná olíunni úr sömu lind upp með öruggum hætti og þannig mögulega ná að slökkva á lekanum úr holunni sem er stjórnlaus og opin.
Hagstæðar vindáttir eru taldar munu halda olíulekanum frá strönd Bandaríkjanna um helgina. Vonast er til þess að hið nýja mengunarvarnarverkfæri komist í gagnið á mánudaginn og hún muni þá ná að fanga 85% af þeirri olíu sem lekur upp um holuna.