Þess var minnst víða í Evrópu í dag að 65 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og sigri bandalagsþjóðanna á Þjóðverjum. Meðal þeirra voru þjóðarleiðtogar Breta og Frakka.
Leiðtogar bresku flokkanna gerðu hlé á viðræðum sínum um nýja samsteypustjórn að loknum kosningum, þeir Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, og David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, og tóku þátt í minningarathöfn í London um fallna hermenn í stríðinu.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, tók einnig þátt í athöfn í París og lagði blómsveig við styttu Charles de Gaulle hershöfðingja. Franskir ráðherrar tóku sömuleiðis þátt í þeirri athöfn.