Búið er að loka níu flugvöllum á Spáni og sex til viðbótar verður lokað kl. 10 í dag vegna öskufalls úr Eyjafjallajökli. Askan hefur verið á leið suðvestur á bóginn síðustu daga og er nú farin að hafa áhrif á flugið til og frá Evrópu og Norður-Ameríku.
Loka þarf Keflavíkurflugvelli síðdegis vegna ösku í andrúmsloftinu. Brottför fimm véla í dag og komu níu véla síðdegis og í kvöld hefur verið aflýst.
Flugvélum Icelandair á leið frá Evrópu verður beint til Glasgow, þaðan sem flogið verður hingað heim og til Bandaríkjanna. Þá flýtti Iceland Express flugi til Alicante, sem átti að fara síðdegis í dag, til kl. 22:50 í gærkvöld. Flug milli Færeyja og Íslands lá niðri í gær og ekkert hefur verið flogið til Vestmannaeyja síðan á þriðjudag.