Leyniskjal gæti ógnað viðræðum

David Cameron
David Cameron Reuters

Stjórnarmyndunarviðræðum Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata í Bretlandi gæti verið teflt í tvísýnu eftir að leynilegu skjali um hvaða stefnu Íhaldsmenn hyggist reka í málefnum Evrópusambandsins var lekið til breskra fjölmiðla.

Um er að ræða skjal sem William Hague, talsmaður íhaldsmanna í utanríkismálefnum skrifaði og ber yfirskriftina „Uppkast að bréfi frá utanríkisráðherra til forsætisráðherra.“ Í því skrifar hann eins og Íhaldsflokkurinn hafi þegar tekið við völdum og leggur til að ríkisstjórn undir forystu Íhaldsflokksins haldi uppi harkalegri gagnrýni á ESB.

Hague gerir einnig grein fyrir því hvernig hann muni, sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, gera grein fyrir sjónarmiði Íhaldsmanna á fundi ráðherra Evrópulandanna sem hittast muni í Bruxelles á morgun.

Í bréfinu upplýsir Hague Cameron um það að skilaboð hans muni vera að „tengsl Breta við Evrópusambandið hafi breyst eftir síðustu kosningar“ í þá veru að mun meiri andstaða er við frekari samþættingu.

Að mati stjórnmálaskýrenda gæti bréfið tafið yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður Cleggs og Camerons, sem framhaldið verður í dag. Frjálslyndir demókratar þykja mjög jákvæðir í garð Evrópusambandsins og vilja að Bretar taki þátt í evrusamstarfinu.

Fyrirfram var vitað að hörð andstaða íhaldsmanna gegn ESB myndi geta orðið ásteytingarsteinn í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Í herbúðum frjálslyndra demókrata telja menn að bréfið sé til vitnis um það að reyna eigi að þvinga flokkinn til þess að nálgast sjónarmið íhaldsmanna í tengslum við ESB.  


Stjórnarmyndunarviðræðum verður fram haldið í dag. Auk málefna Evrópusambandsins er talið að helsta ágreiningsefnið geti verið hvort og hvernig standa eigi að breytingum á kosningarkerfinu í landinu.

Nick Clegg
Nick Clegg Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert