David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Hann gekk á fund Elísabetar Bretadrottningar II fyrr í kvöld og bauð hún honum formlega að ganga til stjórnarmyndunarviðræðna. Gengið er út frá því sem vísu að Cameron muni mynda stjórn með Frjálslyndum demókrötum.
Með afsögn Gordons Browns lýkur 13 ára valdatíma Verkamannaflokksins í Bretlandi.
Cameron, sem er aðeins 43 ára gamall, verður yngsti forsætisráðherrann sem setið hefur að völdum í Bretlandi síðustu tvær aldir. Eftir tæplega hálftíma langan fund með Bretadrottningu hélt Cameron ásamt eiginkonu sinni, Samönthu, að embættisbústað forsætisráðherra Breta í Downing Street 10.
Í ræðu sem Cameron hélt á tröppum Downing Street 10 þakkaði hann forvera sínum í starfi. „Áður en ég ræði um nýju ríkisstjórnina langar mig að segja nokkur orð um þá sem var að láta af störfum. Horfi maður áratug aftur má ljóst vera að Bretland er opnara heimafyrir og horfir með meiri samúðaraugum til útlanda og það er eitthvað sem okkur ber að þakka.“
Cameron benti á að enginn flokkur hefði fengið hreinan meirihluta í nýafstöðnum þingkosningunum og mörg stór og erfið verkefni biðu úrlausnar, þeirra á meðal gríðarleg skuldastaða breska ríkisins, erfið samfélagsleg vandamála og stjórnkerfi sem þyrfti endurnýjunar við.
„Sökum þessa hyggst ég fara í samstarf við Frjálslynda demókrata. Ég er sannfærður um að það sé rétta leiðin fram á við til þess að styrkja stöðu landsins og koma á stöðugri, góðri og almennilegri stjórn sem við þurfum svo sárlega á að halda við núverandi aðstæður,“ sagði Cameron.
Tók hann fram að Nick Clegg og hann myndu sem stjórnmálaleiðtogar setja ágreiningsmál sín til hliðar og í sameiningu vinna að því að stýra landinu sem best á erfiðum tíma.
„Ég er sannfærður um að það sé besta leiðin til þess að mynda þá sterku ríkisstjórn sem við þurfum á að halda í landinu í dag,“ segir Cameron og tók fram að hann hefði á sínum tíma farið út í stjórnmálin vegna þess að hversu heitt hann unni landi sínu og þjóð.