Gordon Brown segir af sér

Gordon Brown, forsætisráðherra, hefur óskað eftir því að láta af embætti forsætisráðherra samtímis því sem hann mun hætta sem formaður Verkamannaflokksins. Hann óskar næsta forsætisráðherra alls hins besta í starfinu. Brown segir að honum hafi líkað vel starfið. Hann býður David Cameron, formanni Íhaldsflokksins, að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Í ræðu sinni sagðist Brown hafa lofað því að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til þess að tryggja myndun nýrrar, stöðugrar og sterkrar ríkisstjórnar sem væri vel í stakk búin til þess að taka á efnahagsvanda Bretlands. 

„Mín stjórnarskrárbundna skylda er að tryggja að hægt sé að mynda starfshæfa stjórn í framhaldi af nýafstöðnum þingkosningum. Ég hef upplýst einkaritara Bretadrottningar um þau áform mín að tilkynna drottningu um formlega afsögn mína. Fallist hún á afsögn mín mun ég ráðleggja henni að bjóða leiðtoga stjórnarandstöðunnar að mynda ríkisstjórn,“ sagði Brown. Tók hann fram að hann óskaði eftirmanni sínum í starfi góðs gengis.

„Aðeins þeir sem gegnt hafa embætti forsætisráðherra geta skilið hversu mikil ábyrgð fylgir þessu starfi og hversu margt gott hægt er að láta af sér leiða í starfinu. Ég hef notið þeirra forréttinda að kynnast því besta í mannlegu eðli, en einnig um veikleika einstaklinga m.a. hjá sjálfum mér,“ sagði Brown og tók fram að það hafi umfram allt verið sér forréttindi að mega þjóna bresku þjóðinni. 

„Já, ég hafði mikla unun af þessu starfi, ekki vegna upphefðarinnar, heiðursins eða hátíðleikans, sem mér þykir ekkert til um. Mér þykir vænt um þetta starfs vegna möguleikanna sem í því felast til að gera breskt þjóðfélag betra, umburðarlyndara, grænna, lýðræðislegra, blómlegra og réttlátara.“

Brown sagði ljóst að hann hefði á síðustu misserum þurft að glíma við margar áskoranir, þeirra á meðal efnahagskreppu heimsins, en tók fram að hann hefði ávallt reynt að hafa það að leiðarljós að þjóna. „Að gera mitt besta til hagsbótar fyrir Bretland og bresku þjóðina. Leyfið mér að bæta við að ég mun ávallt dást að hugrekki þeirra sem ég hef kynnst í hernum okkar.

Nú þegar stjórnmálaferli mínum er lokið vil ég leggja áherslu á að þegar ég hef tekið í hendur þeirra og horft í augu þeirra hef ég séð að herdeildir okkar eru fulltrúar þess besta í landi okkar og ég mun aldrei gleyma öllum þeim sem dáið hafa fyrir landið og fjölskyldur þeirra sem eiga um sárt að binda.“

Gordon Brown tók fram að afsögn hans sem leiðtogi Verkamannaflokksins myndi taka gildi samtímis afsögn hans sem forsætisráðherra. Þakkaði hann öllum samráðherrum sínum, samflokksmönnum og starfsfólki embættisins fyrir gott samstarf, vináttu og þjónustu í þágu landsins. 

„Síðast en ekki síst vil ég þakka Sarah fyrir óhagganlegan stuðning hennar og ást og fyrir hennar framlag til landsins,“ sagði Brown og vísaði þar til eiginkonu sinnar. Jafnframt sagðist hann þakka sonum þeirra hjóna, John og Fraser, fyrir alla þá gleði sem þeir færðu þeim. 

„Nú þegar ég segi af mér næstmikilvægasta starfinu sem ég gat nokkru sinni sinnt þá kann ég enn betur að meta mikilvægasta starfið sem eiginmaður og faðir.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert