Cameron og Clegg bjartsýnir

David Cameron og Nick Clegg viðurkenna að þeir eru að taka nokkra áhættu með því að mynda fyrstu samsteypustjórnina í Bretlandi síðan í seinna stríð. Þeir héldu sinn fyrsta sameiginlega blaðamannafund í bakgarði eimbættisbústaðar forsætisráðherra í Downing Street 10 í dag.

Leiðtogarnir tveir voru jákvæðir og bjartsýnir á fundinum. „Auðvitað munu alltaf heyrast einhverjar efasemdaraddir og það má alltaf finna 1001 ein fyrir því maður eigi ekki að reyna eitthvað nýtt. Erum við tveir að taka mikla áhættu? Já. Eru báðir flokkar okkar að taka stóra áhættu með því að feta nýjar brautir í sögulegu samhengi? Já,“ sagði Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra og leiðtogi Frjálslyndra demókrata.

Blaðamenn notuðu tækifærið á fundinum og rifjuðu upp neyðarleg ummæli leiðtogana tveggja hvor um annan meðan á kosningabaráttunni stóð. Cameron hló að ummælum sem voru höfð eftir honum og sagði ljóst að menn yrðu nú að éta ofan í sig ýmislegt sem látið hefði verið flakka í kosningabaráttunni þegar þeir Clegg voru ekki samherjar heldur andstæðingar, en bætti við að sér væri það hins vegar bara nokkuð ljúft.

Sagði hann ljóst að einstakir flokksmenn myndu vafalítið geta fundið að stefnu og áherslum samstarfsflokksins næstu fimm árin sem ráðgert er að samstarfið endist. Hann lagði hins vegar áherslu á að brýnasta verkefnið undir núverandi kringumstæðum væri að takast á við alvarlega skuldastöðu breska ríkisins og áhrif efnahagskreppunnar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert