ESB fordæmir dauðarefsingar í Íran

Reuters

Utanríkisráðherra Evrópusambandsins, Catherine Ashton, hefur beðið írönsk stjórnvöld að falla frá áformum sínum þess efnis að taka af lífi tvo dauðadæmda einstaklinga sem sakfelldir voru fyrir að vera óvinir guðs.

Beiðni Ashton kemur í kjölfar þess að fimm manns voru nýverið teknir af lífi í Íran með hengingu. Aftakan kallaði á sterk viðbrögð frá Ashton sem sagði að Evrópusambandið fordæmdi aftökurnar.

Ashton hvatti stjórnvöld í Teheran að íhuga möguleikann á því að veita tveimur einstaklingum, sem nú bíða aftöku, annars konar refsingu. Um er að ræða karlmann og konu sem fundin voru sek um að vera óvinir guðs.

Í yfirlýsingu sem Ashton sendi frá sér segir hún að ESB hafi miklar áhyggjur af endurteknum aftökum í Íran þar sem verið sé að taka af lífi fólk úr minnihlutahópum sem og fólk sem leyfði sér að mótmæla í framhaldi af forsetakosningunum í Íran sumarið 2009.

Það sem af er árinu hefur a.m.k. 61 einstaklingur verið tekinn af lífi í Íran. Á síðasta ári voru a.m.k. 270 teknir af lífi í Íran með hengingu.

Að sögn stjórnvalda í Teheran gegna dauðarefsingar mikilvægu hlutverki til þess að hafa stjórn á íbúum landsins og stuðla að öryggi. Segja þeir aftökur aðeins framkvæmdar í framhaldi af umfangsmiklum réttarhöldum.

Ashton leggur hins vegar áherslu á Evrópusambandið leggist gegn dauðarefsingum undir öllum kringumstæðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka