10 ára drengir ákærðir fyrir nauðgun

Old Baily sakamáladómhúsið í Lundúnum.
Old Baily sakamáladómhúsið í Lundúnum.

Tveir drengir, 10 og 11 ára að aldri, sátu í gær á sakamannabekknum í Old Baily dómhúsinu í Lundúnum, ákærðir fyrir nauðgun. Að sögn blaðsins The Times eru drengirnir taldir meðal yngstu sakborninga í nauðgunarmáli í breskri réttarsögu en fórnarlambið er 8 ára gömul stúlka.

The Times segir, að drengirnir hafi setið ásamt mæðrum sínum í réttarsalnum en ýmsum venjum var ýtt til hliðar vegna ungs aldurs sakborninganna. Þannig voru dómari og lögmenn ekki með hefðbundnar hárkollur. Þá sat dómarinn niðri í salnum en ekki á palli og yfirheyrslur taka styttri tíma en venja er.

Í gær var sýnt myndband sem tekið var þegar sérþjálfaðir lögreglumenn tóku skýrslu af litlu stúlkunni. Hún sagði, að drengirnir hefðu neitað að láta hana fá hlaupahjólið sitt nema hún hlýddi þeim. Hún sagðist hafa fylgt drengjunum úr lyftu í fjölbýlishúsi í skúr skammt frá og síðan á grænt svæði bakvið limgerði þar sem þeir nauðguðu henni. 

Stúlkan sagði í viðtalinu, að á meðan þessu stóð hefðu hún hugsað um að fara í sælgætisbúðina með móður sinni. 

Þetta gerðist í október. Stúlkan sagðist hafa verið að leika við yngri systur sína og 5 ára gamlan vin þeirra þegar drengirnir komu og leiddu hana á brott. Þeir sögðu henni að girða niður um sig, annars fengi hún ekki hlaupahjólið sitt aftur. 

Fram kom í réttarhaldinu, að yngri systir stúlkunnar, sem kom heim ein, sagði móður þeirra, að strákarnir tveir hefðu verið að meiða systur hennar. Mæðgurnar fóru þá að leita að stúlkunni og hittu  móður annars drengsins og hinn 5 ára gamla vin systranna. Þegar þær spurðu drenginn hvar stóru strákarnir væru svaraði hann, að þeir væru á nálægu engi að meiða stúlkuna.

Konurnar fóru að leita að börnunum en fundu þau ekki fyrst. Þau komu síðan gangandi og sögðust þá hafa verið að leika sér. Móðir stúlkunnar lét annan drenginn sækja hlaupahjólið en þegar mæðgurnar gengu saman heim sá móðirin að ekki var allt með felldu. Hún gekk á dóttur sína sem sagði henni þá allt af létta og lögreglan var kölluð til.

Báðir drengirnir hafa neitað sök. Að sögn Times hefur annar þeirra bent á hinn en sá hefur ekkert viljað segja um málið.

Frétt The Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert