„Brjálaði puttaferðalangurinn“ tekinn af lífi

Michael Beuke
Michael Beuke

Dæmdur morðingi sem hefur verið á dauðadeild í Ohio í Bandaríkjunum í 26 ár var tekinn af lífi í dag.  Michael Beuke, sem gengur undir heitinu „brjálaði puttaferðalangurinn", myrti ökumann sem tók hann upp á puttanum árið 1983 og hefur verið á dauðadeild frá þeim tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálayfirvöldum í Ohio fékk Beuke bannvæna innspýtingu með þremur lyfjum í Lucasville og lést klukkan 14:53 að íslenskum tíma, 48 ára að aldri.

Átti hann mjög erfitt með að hemja tilfinningar sínar síðustu klukkustundirnar sem hann lifði. Bað hann fjölskyldur fórnarlambsins afsökunar og bað með talnabandi í sautján mínútur.

Beuke var dæmdur í október 1983 fyrir morðið á Robert Craig nokkrum mánuðum fyrr. Lík Craig fannst í skurði í Clermontsýslu þann 1. júní 1983. Hafði hann verið skotinn tvívegis í höfuðið og einu sinni í brjóstið. Að sögn lögreglu hafði Beuke sært tvo aðra ökumenn sem höfðu tekið hann upp á puttanum. Vitnisburður þeirra leiddi lögreglu að Beuke.

Beuke, sem var flogaveikur, hafði nokkrum sinnum óskað eftir mildun dómsins þar sem lyfin sem notuð eru við dauðarefsinguna gætu valdið honum óþarfa sársauka. Á þriðjudag var síðustu beiðni hans hafnað.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka