Ríkissaksóknaraembætti Ítalíu hefur undir höndum lista yfir 350 ítalska stjórnmálamenn, háttsetta embættismenn og yfirmenn í lögreglunni, sem hafa þegið mútur frá verktaka, samkvæmt fréttum ítalskra fjölmiðla í dag.
Listinn fannst á síðasta ári í tölvu verktakans, Diego Anemone, í Róm en í síðustu viku var hann miðpunktur athygli fjölmiðla er efnahagsmálaráðherra Ítalíu, Claudio Scajola, neyddist til þess að segja af sér.
Í ljós kom að Scajola hafði greitt langt undir markaðsvirði fyrir níu herbergja íbúð sem hann keypti fyrir nokkrum árum í Róm. Íbúðin, sem er með útsýni yfir Colosseum hringleikjahúsið, var keypt af systur Anemone. Það sem upp á vantaði, 900 þúsund evrur, 148 milljónir króna, greiddi Anemone, algjörlega án vitundar ráðherrans ef marka má orð hans er hann sagði af sér ráðherraembætti.
Anemone , var látinn laus úr haldi á sunnudag eftir að hafa verið í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði.