Líðan hollensks drengs, sem er sá eini sem komst lífs af eftir flugslys í Líbýu, er stöðug. Hann hefur gengist undir nokkrar skurðaðgerðir á báðum fótleggjum, sem brotnuðu á nokkrum stöðum.
Búið er að finna flugrita vélarinnar sem fórst með þeim afleiðingum að 103 létust. Þeir verða nú skoðaðir og reynt að komast að því hvað olli því að vél Afriqiyah Airways hrapaði við flugvöllinn í Trípólí sl. miðvikudag.
Utanríkisráðuneyti Hollands segir að drengurinn hafi sagt við hollenska sendiráðsstarfsmenn að hann heiti Ruben og sé níu ára gamall. Hann sé frá borginni Tilburg í suðurhluta Hollands. Hollensk hjón hafa flogið til Trípólí til að fá staðfest hver drengurinn er.