Bandarísku geimferjunni Atlantis var í kvöld skotið á loft frá Canaveralhöfða á Flórída. Er þetta síðasta ferð geimferjunnar, sem flytur sex geimfara til alþjóðlegu geimstöðvarinnar.
Þetta er 32. ferð Atlantis út í geim en sú fyrsta var farin árið 1985. Tilgangur ferðarinnar nú er m.a. að flytja rússneska rannsóknarstofu í geimstöðina.
Eftir þessa ferð eru aðeins tvær geimferjuferðir til viðbótar fyrirhugaðar. Discovery verður skotið á loft í september og Endeavour í nóvember.