Helmingur starfsmanna Carlsberg bruggverksmiðjunnar í Danmörku lögðu niður störf og hófu verkfall í dag. Aðgerðirnar eru þegar farnar að segja til sín því víða er orðinn skortur á þeim græna, bjórþyrstum landsmönnum til mikillar armæðu.
Verkfallið hefur leitt til þess að framleiðsla og flutningur á bjórnum hefur stöðvast, en alls lögðu 1.100 starfsmenn niður störf í dag. Alls starfa um 2.000 hjá Carlsberg í Danmörku.
Starfsmennirnir krefjast launahækkunar, en forsvarsmenn fyrirtækisins vilja hins vegar frysta laun allra starfsmanna út þetta ár.
Talsmaður fyrirtækisins segir að menn hafi orðið varir við skort á drykkjarföngum frá verksmiðjunni á Jótlandi vegna verkfallsins. Hann segir að staðan geti orðið svipuð um allt land innan viku, haldi verkfallið áfram.
Fyrirtækið er fjórði stærsti bjórframleiðandi heims, en auk Carlsberg er Tuborg bjórinn einnig bruggaður hjá bruggverksmiðjunni.