22 hafa fallið í átökum í Tælandi á síðustu þremur dögum. Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra landsins, segir að herinn sé að sækja fram í þeim tilgangi að stöðva mótmæli stjórnarandstæðinga. Hann segir að inngrip hersins sé eina leiðin til að stöðva ofbeldið.
Sex hafa fallið í átökunum í dag, sem þýðir að 22 hafa fallið þar síðustu þrjá dagana. Stjórnarandstæðingar hafa komið upp götuvígum og krefjast þess að forsætisráðherrann segi af sér. Vejjajiva kom fram í sjónvarpi í gær í fyrsta viðtalinu sem hann veitir síðan átökin hófust. Hann sagðist vera að reyna að koma á friði með því að kosta eins litlu til eins og hægt væri. „Við munum ekki hörfa,“ sagði Vejjajiva.
Stjórnvöld hafa útilokað viðræður við stjórnarandstæðinga. Nokkur þúsund stjórnarandstæðingar eru í miðborginni. Eldur hefur verið borinn að dekkjum og skothvellir heyrast.
Einn af leiðtogum stjórnarandstæðinga, Kwanchai Praipana, sagði að þeir væru farnir að skorta vistir, en bætti við að stjórnarandstæðingar gætu haldið áfram átökum í marga daga.
Bandarísk stjórnvöld hefur varað Bandaríkjamenn við að ferðast til Tælands.