Grískir veitingastaðir og barir eru farnir að finna verulega fyrir aðhaldsaðgerðum stjórnvalda, en veitingamenn segja að mjög hafi dregið úr viðskiptum að undanförnum.
Grísk stjórnvöld hafa boðað niðurskurð, skatthækkanir og launalækkanir í þeim tilgangi að koma efnhag landsins aftur á rétta kjöl. Þetta hefur komið sér illa við gríska veitingastaði, sem hafa ávallt notið mikilla vinsælda meðal heimamanna og ferðamanna.
„Fólk hefur fundið fyrir þessum aðgerðum. Það kemur ekki eins oft eins og það gerði. Dæmigerðir viðskiptavinir okkar komu þrisvar sinnum í viku, en nú koma þeir aðeins einu sinni á 15 daga fresti. Þá hefur það breyst hvernig þeir panta. Þeir panta aðeins einn eða tvo rétti í stað margra, eða þeir fá sér bara einn drykk og spjalla við vini sína í stað þess að borða. Þetta hefur því breyst mikið, og þetta er ekki eins og það var,“ segir Anna Lambrou í samtali við Reuters.
Stjórnvöld í Grikklandi eiga von á 110 milljarða evra efnahagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Skilyrði fyrir aðstoðinni eru m.a. þau að Grikkir skeri niður og hækki skatta.