Ráðamenn í Bagdad, höfuðborg Íraks, eru byrjaðir að láta reisa 4,5 metra háan múr utan um borgina til að gera hryðjuverkamönnum erfiðara fyrir um að komast inn í hana, að sögn The Times í London. Um fimm milljónir manna búa í Bagdad.
Múrinn verður alls um 112 kmk að lengd. Á honum verða átta hlið við helstu umferðaræðarnar. Er ljóst að miklar truflanir verða á umferð til og frá borginni þar sem kannað verður vandlega hverjir vilji reyna að komast inn. Notast verður m.a. við bandarískan gagnabanka með fingaraförum og myndum af skráðum hryðjuverkamönnum og leitað í öllum bílum.
Jafnframt er ætlunin að rífa um 1500 varðstöðvar inni í borginni og fjarlægja fjölda steypuklumpa sem settir hafa verið upp til að hindra sjálfsmorðssprengjumenn í að aka bílum með sprengiefni á mikilvægar byggingar.
Bagdad var reist á 8. öld eftir Kr. og var þá reistur rammger múr utan um hana til varnar. Sami háttur var hafður á til að verja evrópskar borgir á þeim tíma en eftir að fallbyssur komu til sögunnar varð lítið gagn að slíkum múrum.