Gert er ráð fyrir því að öskuský vegna eldgossins í Eyjafjallajökli raski flugi yfir Bretlandi og Hollandi fram eftir degi. Tveimur stærstu flugvöllunum í London, Heathrow og Gatwick, var lokað klukkan eitt í nótt að staðartíma en þeir voru opnaðir að nýju í morgun.
Alþjóðaflugvöllurinn í Dublin og fleiri flugvellir á Írlandi eru lokaðir vegna öskuskýsins. Allir flugvellir Norður-Írlands eru einnig lokaðir.
Þá hafa yfirvöld í Hollandi skýrt frá því að Schiphol-flugvöllur í Amsterdam og flugvellir í Rotterdam verði lokaðir frá klukkan sex að staðartíma í dag til klukkan tvö eftir hádegi.