Olía berst í áttina að Flórída

Olíuslikja í Mexíkóflóa.
Olíuslikja í Mexíkóflóa. Reuters

Vísindamenn segja að sterkir hafstraumar beri nú olíu, sem lekur á hafsbotni í Mexíkóflóa, í áttina að Flórída og að austurströnd Bandaríkjanna.

Evrópska geimvísindastofnunin (ESA) segir að myndir úr gervitunglum sýni að olían geti verið komin að kóralsvæðum við Flórída-Keys-eyjarnar, sem eru við suðvesturströnd Flórídaskaga, innan sex daga.

Skv. myndum ESA sést olía teyga sig suður að Slaufustraumnum (e. Loop Current).

Bandaríska landhelgisgæslan segir að mælingar í flóanum hafi sýnt fram á að tjara, sem hefur undanfarna daga skolað á land á Flórídaskaga, komi ekki frá olíulindinni í Mexíkóflóa. Ekki er vitað hvaðan tjaran kemur.

Vísindamenn ESA segja að Slaufustraumurinn sé eins og færibelti sem sameinist svo Golfstrauminum, sem er mikilvægasti hafstraumur á norðurhveli jarðar.

Þeir segja að ef olían komist í tæri við Golfstrauminn þá geti hann flutt olíu að austurströnd Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert