Teveislumaður sigraði

Rand Paul fagnar sigri sínum í Kenctucky.
Rand Paul fagnar sigri sínum í Kenctucky. Reuters

Rand Paul, íhaldsmaður í svonefndri Teveislu-hreyfingu í Bandaríkjunum, sigraði í forkosningum repúblikana vegna kosninganna til öldungadeildar þingsins í nóvember.

Paul sigraði Trey Grayson, sem naut stuðnings margra forystumanna repúblikana, með 60% atkvæða. Meðal stuðningsmanna Graysons voru Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, og Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.

Þetta er annar sigur Teveislunnar í forkosningum repúblikana vegna þingkosninganna í nóvember. Áður hafði öldungadeildarþingmaður flokksins í Utah, Bob Bennett, beðið ósigur fyrir frambjóðanda sem naut stuðnings Teveislunnar. Með nafni hreyfingarinnar er vísað til þess þegar andstæðingar breskrar skattheimtu hentu nokkrum teförmum í höfnina í Boston árið 1773.

Öldungadeildarþingmaður demókrata í Pennsylvaníu, Arlen Specter, beið ósigur fyrir fulltrúadeildarþingmanninum Joe Sestak í forkosningum demókrata. Specter var repúblikani þegar hann var fyrst kjörinn í öldungadeildina árið 1981 en sagði sig úr flokknum í fyrra. Hann kvaðst hafa gengið til liðs við demókrata vegna þess að repúblikanar hefðu færst of langt til hægri.

Úrslit forkosninganna þykja benda til þess að sitjandi þingmenn í báðum flokkunum eigi nú undir högg að sækja vegna óánægju almennings með ástandið í efnahagsmálum. Fréttaskýrendur segja að margir kjósendur hafi áhyggjur af því að bandarísk stjórnvöld hafi gert of lítið til að stuðla að efnahagsbata og draga úr ríkisútgjöldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert