David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lýsti yfir andstöðu við frekari aðgerðir til stuðnings evruríkjunum á fundi með Angelu Merkel Þýskalandskanslara, þvert á þá skoðun Merkel að ESB-ríkin þurfi að gefa eftir hluta af sjálfstæði í peningamálum til að forðast aðra kreppu á evrusvæðinu.
Fjallað er um málið vef breska dagblaðsins The Daily Telegraph en þar er haft eftir Cameron að Bretland, sem standi utan evrunnar, muni ekki fallast á björgunaraðgerðir til handa evrunni sem færi landið nær gjaldmiðlinum.
Bretland væri eitt 27 aðildarríkja ESB og hefði sem slíkt neitunarvald gagnvart slíkum samningi.
Leiðtogarnir hittust í Berlín en við það tilefni var nýtt bann þýsku stjórnarinnar við skortsölu á evrum í Þýskalandi borið undir Cameron og svaraði hann þá því til að aðildarríkin þyrftu að virða ákvarðanir annarra ríkja í þessum málum.
Cameron staðfesti jafnframt að leiðtogarnir hefðu rætt möguleikann á nýjum reglugerðum um starfsemi vogunarsjóða með þeim orðum að breska stjórnin hefði áhyggjur af því að slíkir sjóðir hefðu ekki verið rót vandans á fjármálamörkuðum.
„Við föllumst á þörfina fyrir regluverk en það verður að vera sanngjarnt og í réttu samhengi,“ sagði Cameron sem benti jafnframt á að fjárlög ESB ættu ekki að vera undanþeginn almennum niðurskurði í aðildarríkjunum.