Engin aska í hreyflunum

Þota British Airways lendir á Heathrow-flugvelli í London.
Þota British Airways lendir á Heathrow-flugvelli í London. Reuters

British Airways hefur ekki fundið nein merki um ösku í hreyflum farþegaþotna flugfélagsins þrátt fyrir viðamiklar rannsóknir, að sögn forstjóra þess, Willie Walsh.

The Wall Street Journal hefur eftir Walsh að engin aska hafi fundist í hreyflum þotnanna þrátt fyrir 8.000 hreyfilskoðanir eftir að lofthelgi Evrópuríkja var opnuð að nýju 20. apríl, eftir sex daga lokun. „Það er ekki nóg með að engar skemmdir hafi fundist, við höfum ekki heldur fundið neina ösku,“ sagði Walsh. Hann bætti við að hreyflar úr vélum BA og síur þeirra hefðu verið sendar í rannsóknastofur til frekari rannsóknar.

Flugfélög hafa gagnrýnt viðbrögð yfirvalda í Evrópuríkjum við öskunni frá eldgosinu í Eyjafjallajökli og telja að flugvöllum hafi verið lokað að óþörfu. Allt að 80% af lofthelgi Evrópulandanna voru lokuð, rúmlega 100.000 flugferðum var aflýst og flugbannið raskaði ferðaáætlunum 10 milljóna manna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert