Bandaríkjaforseti ræddi í dag við kanslara Þýskalands um mikilvægi þess að samræma regluverk um fjármálakerfið og samhæfa aðgerðir til að örva efnahagskerfi heimsins. Samtal þeirra Baracks Obama forseta Bandaríkjanna og Angelu Merkel kanslara Þýskalands var liður í undirbúningi fyrir G20 fund stærstu efnahagsríkja heims í Toronto í næsta mánuði.
Obama óskaði jafnframt Merkel til hamingju með að hafa náð að tryggja stuðning þýska þingsins við þátt Þýskalands í risavöxnum björgunarpakka til handa skuldsettum Evrópuríkjum.
Á mót óskaði Merkel Obama til hamingju með að öldungadeild Bandaríkjaþings skyldi í vikunni samþykkja frumvarp Obama að mestu umbótum á reglum um fjármálamarkaði í áratugi.
Loks ræddu þau Obama og Merkel áhyggjur sem þau deila af kjarnorkuáætlun Írana. Áhyggjurnar stafa af því að Íranar hafa ekki orðið við kröfum vesturvelda um að þeir hætti að auðga úran og skýri betur það sem Íranar kalla kjarnorkuframleiðslu í borgaralegum tilgangi, en vesturveldin telja vera ekkert annað en framleiðslu kjarnorkuvopna.