Rafbyssu beitt á einhverfan pilt

Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafbyssu.
Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafbyssu. AP

Lögreglan í bandaríska bænum Tybee Island liggur undir ámæli eftir ásakanir 18 ára einhverfs pilts sem segist í tvígang hafa verið skotinn með rafbyssu (e. taser) af lögreglumanni á föstudagskvöld. Pilturinn var að sögn handtekinn fyrir drykkjulæti.

Bærinn Tybee Island er á samnefndri eyju, þ.e. Tybee, í Georgíufylki og aðeins búa þar á fjórða þúsund manns. Bróðir piltsins, Cliffords Grevemberg, greinir í samtali við fréttastofu Fox, frá harðræðinu. Hann segir bróður sinn hafa setið á gangstétt með hendur á höfði sér sem hafi auðsýnilega verið túlkað sem drykkjulæti. Lögreglumenn hafi kastað honum í jörðina og skotið á hann með rafbyssunni áður en hann var færður í handjárn.

Pilturinn ber áverka í andliti auk þess sem tönn brotnaði í atganginum. Bróðir hans segir hann ekki hafa hlotið varanlegan skaða af rafbyssuskotunum sem þyki mildi þar sem hann þjáist ennfremur af hjartasjúkdómi. Hann segir skýringar lögreglu með ólíkindum enda snerti bróðir hans ekki áfengi.

Samkvæmt frásögn Fox hefur yfirstjórn lögreglunnar ekki viljað tjá sig um atvikið að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert