Georgía tapar á gosinu

Gosið hefur víðtækar afleiðingar.
Gosið hefur víðtækar afleiðingar. Helgi Bjarnason

Efnahagsbatanum í Georgíuríki í Bandaríkjunum mun seinka miðað við fyrri áætlanir. Athygli vekur að eldgosið í Eyjafjallajökli er talin ein skýringin á því hvers vegna hagkerfi ríkisins hafi ekki rétt fyrr úr kútnum en vonast var til.

Fjallað er um málið á vef The Augusta Chronicle, staðarblaði borgarinnar Augusta, en þar kemur fram að borgin hafi farið betur út úr kreppunni en ríkið almennt þar sem um 10 milljónir manna búa. 

Frétt blaðsins er byggð á nýrri skýrslu hagfræðideildar Georgia State University og er vitnað til þess stöðumats sérfræðinga skólans að skuldakreppan í Grikklandi, olíuslysið í Mexíkóflóa og gosið í Eyjafjallajökli hafi orðið til að seinka efnahagsbata ríkisins.

Er það rakið til neikvæðra áhrifa gossins á flug og ferðaþjónustu í ríkinu.

Olíuslysið í Mexíkóflóa er hins vegar sagt munu geta haft alvarlegri afleiðingar enda geti það leitt til hrinu gjaldþrota sem komið geti niður á hagkerfi ríkisins, sem leiði efnahagskerfi suðausturhluta Bandaríkjanna.

Íbúafjöldi Augusta er ríflega 530.000 að meðtöldum úthverfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert