Lögreglan í Brasilíu og Frakklandi hóf fyrr í vikunni samstarf í því skyni að reyna að koma í veg fyrir smygl á kókaíni frá Brasilíu til Frakklands. Átak lögreglunnar felst í því að leitað er á öllum farþegum á völdum flugleiðum frá Sao Paulo, en svo víðtæk leit að fíkniefnum í fórum farþega á sér ekki fordæmi í Brasilíu.
Sem dæmi voru nýverið allir 750 farþegar og flugáhöfn þriggja flugvéla á leið til Parísar, þar af tvær vélar á vegum Air France og ein á vegum hollenska flugfélagsins KLM, teknir til hliðar þar sem lögreglan leitaði á farþegunum ásamt því sem farangur þeirra var grandskoðaður í viðurvist fíkniefnahunda.
Að sögn talsmanns frönsku lögreglunnar er þetta ítarlega eftirlit til komið að frumkvæði franskra lögregluyfirvalda. Um er að ræða tilraun sem menn vonast til að geti dregið úr smygli á eiturlyfjum frá Brasilíu til Evrópu.
Sami talsmaður segir að frá árinu 2008 hafi Brasilía skákað bæði Kólumbíu og Venesúela sem helsta útflutningsland fíkniefnis til Frakklands. Á síðustu tveimur árum hefur 40% af þeim 8 tonnum af kókaíni sem franska fíkniefnalögreglan hefur lagt hald á komið frá Brasilíu. Árið 2009 voru 250 burðardýr handsömuð á Charles de Gaulle flugvellinum í París og komu 60 þeirra frá Brasilíu, en um 90% þeirra höfðu flogið í gegnum Sao Paulo.
Það sem af er þessu ári hafa 30 burðardýr verið handsömuð á flugvölum í París, þar af komu 12 frá Brasilíu og höfðu 10 þeirra flogið í gegnum Sao Paulo.
Eftirlitsaðgerðirnar á flugvelli Sao Paulo fyrr í vikunni skiluðu litlu. Kona frá Perú gat ekki gert grein fyrir 35 þúsund bandaríkjadölum sem hún var með á sér auk þess sem hald var lagt á fjögur kíló af amfetamíni sem fíkniefnaleitarhunda fundu í farangri.
Að sögn heimildamanns innan brasilísku lögreglunnar eru margar ástæður fyrir því að leitin skilaði ekki meiri árangri en þetta. „Við höfðum ekki heppnina með okkur. Hugsanlegt er að starfsfólk á flugvellinum hafi lekið upplýsingum um að leitirnar stæðu til,“ segir heimildamaðurinn sem ekki vill láta nafn síns getið, en eftirlitsaðgerðin hefur verið í bígerð svo mánuðum skiptir.