Skuldir ei meir

Börn bera vatn í Port-au-Prince höfuðborg Haítí í kjölfar jarðskjálftanna.
Börn bera vatn í Port-au-Prince höfuðborg Haítí í kjölfar jarðskjálftanna. Reuters

Forsvarsmenn Alþjóðabankans tilkynntu fyrr í dag að skuldir Haítí við bankann hefðu verið felldar niður. Er þetta gert til þess að auðvelda landinu að komast á fæturna aftur eftir hinar gríðarlegu mannskæðu jarðskjálfta í upphafi ársins.

Haítí, sem er eitt fátækasta land í heimi, þarf samkvæmt þessu ekki að greiða bankanum þær 36 milljónir bandaríkjadala sem landið skuldar sérstökum sjóði á vegum bankans sem ætlaður er fátækustu löndum heims.  

„Haítí þarf ekki að greiða neitt frekar til baka til Alþjóðabankans,“ segir í yfirlýsingu sem bankinn sendi frá sér fyrr í dag.

Niðurfellingin á skuldunum er möguleg vegna þess að 13 aðildarlönd bankans lögðu fram aukafjárveitingu, en um er að ræða Belgíu, Kanada, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Írland, Ítalía, Japan, Holland, Noregur, Spánn, Svíþjóð og Sviss.

Strax í kjölfar jarðskjálftanna í upphafi árs tilkynntu forsvarsmenn bankans að hlé yrði gert á greiðslum Haítí til bankans og leitað yrði allra leiða til þess að fella skuldir landsins við bankann niður.

„Með því að gefa eftir afganginn af skuldunum viljum við leggja okkar að mörkum til þess að stuðla að frekari uppbyggingu í Haítí,“ segir Robert Zoellick, forstjóri Alþjóðabankans í yfirlýsingu.

„Við munum áfram vinna náið með stjórnvöldum á Haítí og samstarfsaðilum okkar á alþjóðavísu að því að styðja við endurreisn landsins og langtíma uppbyggingu.“

Í tilkynningu frá bankanum kemur jafnframt fram að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að bjóða Haítí 479 milljón bandaríkjadala fjárstuðning vegna hamfaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert