Fulltrúar þeirra nærri tvö hundruð landa sem standa að sáttmála um útrýmingu kjarnorkuvopna hafa sammælst um að vinna að því að gera Miðausturlönd kjarnorkulaus.
Fulltrúar landanna hittust á fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna í New York og samþykktu þar yfirlýsingu þess efnis að stefna að því að haldin verði ráðstefna árið 2012 þangað sem boðið verði fulltrúum landa fyrir botni Miðjarðarhafs, þeirra á meðal Íran með það að markmiði að auka öryggið á svæðinu.
Við sama tækifæri hvöttu fulltrúar allra landanna Ísrael til þess að undirrita sáttmálann um útrýmingu kjarnorkuvopna.
Barack Obama Bandaríkjaforseti segist styðja hugmyndir landanna, en tók fram að hann væri mjög á móti því að Ísrael væri sérstaklega tekið fyrir. Bandarísk stjórnvöld hafa áhyggjur af því að ályktunin geti einmitt komið í veg fyrir að ísraelsk stjórnvöld séu reiðubúin að senda fulltrúa sinn á ráðstefnuna 2012. Ísraelskir embættismenn hafa þegar látið hafa eftir sér að mikil sýndarmennska felist í fyrrgreindri ályktun landanna.
„Aðeins er minnst á Ísrael, en ekki er vikið einu orði að öðrum löndum á borð við Indland, Pakistan eða Norður-Kóreu sem einnig búa yfir kjarnavopnum, eða það sem alvarlegra er, Íran, sem reynir allt sem í valdi sínu stendur til að komast yfir slík vopn,“ sagði hátt settur ísraelskur embættismaður sem ekki vildi láta nafn síns getið.